Í þessari viku hefur staðið yfir kennsla í Sjávarútvegsskóla Austurlands fyrir nemendur í Neskaupstað sem hafa nýlokið 8 bekk. Háskólinn á Akureyri heldur utan um kennsluna.
Kennsla er í samstarfi við vinnuskóla Fjarðabyggðar og eru nemendur á launum á meðan þau sækja skólann. Tilgangur skólans er að kynna nemendur betur fyrir fjölbreytileika sjávarútvegs. Leiðbeinendur í skólanum að þessu sinni eru þær Arnbjörg Hlín Áskelsdóttir nemi í sjávarútvegsfræði og Lilja Gísladóttir sjávarútvegsfræðingur.
Kennslan í Neskaupstað gekk vel og voru útskrifaðir nemendur 19 talsins. Kennsla hefur nú þegar farið fram á Vopnafirði og Fáskrúðsfirði en í næstu viku verður kennt á Eskifirði, eftir það Seyðisfirði og svo loks Grenivík. Í heildina er áætlað að útskrifa 105 nemendur úr skólanum í sumar. Kennt er í fjóra daga í senn og er kennslan fjölbreytt þar sem reynt er að koma inn á sem flest svið sem tengjast sjávarútvegi.
Talsmaður heimasíðunnar gaf sig á tal við þær Arnbjörgu og Lilju. Kennslan gekk vel og hefur dagskráin verið fjölbreytt og skemmtileg. Nemendur hafa í vikunni fræðst um marga mismunandi þætti sjávarútvegsins bæði með fyrirlestrum, leikjum og fyrirtækjaheimsóknum. Meðal þess sem var gert í vikunni var heimsókn í Hampiðjuna þar fengum við að kynnast veiðafærum. Við fengum að fara um borð og skoða uppsjávarskipið Börk. Hápunktur vikunnar var að fara í fiskimjölsverksmiðjuna þegar verið var að vinna hráefni úr Margréti EA. Vel er tekið við okkur á öllum stöðum og nemendurnir eru mjög áhugasamir og skemmtilegir. Fyrir okkur leiðbeinendur er mjög gefandi og skemmtilegt tækifæri að fá að heimsækja marga staði og kynnast sjávarútvegi í mismunandi byggðarlögum.
Saga Sjávarútvegsskólans er athyglisverð en Síldarvinnslan kom skólanum á fót árið 2013 og bar hann þá nafnið Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar. Árið eftir var boðið upp á fræðsluna í allri Fjarðabyggð og var skólinn þá nefndur Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar. Árið 2015 var fræðslan skipulögð um allt Austurland og var nafni skólans breytt í samræmi við það og hann nefndur Sjávarútvegsskóli Austurlands. Árið 2016 hóf Háskólinn á Akureyri að annast skólahaldið og hefur Sjávarútvegsskólinn nú einnig teygt anga sína til Norðurlands. Þá hefur Sjávarútvegsskóli Ísafjarðarbæjar einnig verið starfræktur að austfirskri fyrirmynd.