Birtingur NK kemur með makríl til löndunar. Ljósm. Sigurður Steinn Einarsson.Um þessar mundir hefur rúmlega 13.000 tonnum af makríl verið landað til vinnslu í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á yfirstandandi vertíð. Megnið af aflanum hafa Beitir NK, Börkur NK og Bjarni Ólafsson AK fært að landi en eins hafa Birtingur NK og Bjartur NK landað makríl til vinnslu. Þá hafa vinnsluskip landað tæpum 12.000 tonnum af frystum makríl í frystigeymslur Síldarvinnslunnar. Af frystiskipunum  hefur Vilhelm Þorsteinsson EA landað mestu en þar á eftir kemur Kristina EA. Þá hefur Barði NK einnig landað frystum makríl í geymslurnar.

Fyrir utan makrílinn hefur töluvert borist af síld á land í Neskaupstað en síld er meðafli á makrílvertíðinni.