Beitir NK heldur til veiða að lokinni löndun á norsk-íslenskri síld. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK heldur til veiða að lokinni löndun á
norsk-íslenskri síld. Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Hjá Síldarvinnslunni mynda makríl- og norsk-íslenska síldarvertíðin eina heild. Síldveiðarnar voru hafnar áður en makrílveiðunum lauk um miðjan septembermánuð. Makrílvertíðin hófst 20. júlí og síðasta síldarfarminum var landað 23. október. Alls voru 53 þúsund tonn tekin til vinnslu á þessum tíma; tæplega 27 þúsund tonn af makríl og rúmlega 26 þúsund tonn af síld. Öll áhersla var lögð á að vinna makrílinn og síldina til manneldis og var unnið á þrískiptum vöktum í fiskiðjuveri fyrirtækisins í Neskaupstað. Vinnslan var nánast samfelld og einungis tekið stutt frí yfir verslunarmannahelgina. Fjögur skip önnuðust hráefnisöflun fyrir fiskiðjuverið en það voru Beitir NK, Börkur NK, Bjarni Ólafsson AK og Margrét EA. Þá landaði Hákon EA frystum afurðum í Neskaupstað.
 
Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki, segir að bæði makrílvertíðin og síldarvertíðin hafi gengið einstaklega vel. „Þegar við hófum veiðar á makrílnum var hann farinn að ganga í austur frá landinu og í reyndinni fengust fáir túrar innan íslenskrar lögsögu en mest var veitt í Síldarsmugunni. Veiði var almennt mjög góð og fiskurinn var stór og hentaði vel til vinnslu. Síðan kom að því að makríllinn gekk út úr Smugunni og inn í norska lögsögu og þá lauk okkar veiðum. Síldin var hins vegar að langmestu leyti veidd skammt austur af landinu; á Héraðsflóanum og á Glettinganesgrunni og þar norður af. Það var mikið af síld og holin urðu að vera stutt. Fyrir kom að menn lentu í því að fá allt of stór hol þó reynt væri að sýna aðgæslu. Að því kom að síldin gekk austur í Smuguna og við eltum hana þangað og þar var veitt undir lokin,“ segir Hjörvar.
 
Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu, segir að makríl- og síldarvertíðin hafi gengið einstaklega vel. „Vinnslan gekk eins og best var á kosið enda hráefnið afar gott. Makríllinn var góður og síldin veiddist lengst af við bæjardyrnar þannig að hún var ferskt úrvalshráefni auk þess að vera stór og falleg. Framleitt var allan vertíðartímann ef undan er skilið stutt hlé sem gert var yfir verslunarmannahelgina. Lykillinn að góðum árangri hjá okkur er gott starfsfólk. Það er svo einfalt að þetta tekst ekki nema með mjög góðu starfsfólki. Næst á dagskrá hjá okkur er að búa til okkar árlegu jólasíld og síðan verður kíkt á íslensku sumargotssíldina þegar veiðar á henni hefjast og kannað hvort hún verður hæf til manneldisvinnslu. Svo er það stóra spurningin: Verður einhver loðnuvertíð ?“, segir Jón Gunnar.