Börkur NK og Bjarni Ólafsson AK komu til Neskaupstaðar í morgun með góða kolmunnafarma. Börkur var með tæplega 1.800 tonn og Bjarni Ólafsson með rúmlega 1.600 tonn. Aflinn fékkst í Rósagarðinum. Skipstjórarnir, Hjórvar Hjálmarsson á Berki og Runólfur Runólfsson á Bjarna Ólafssyni, leggja báðir áherslu á mikilvægi þess að kolmunni veiðist innan íslenskrar lögsögu. „Það var þokkalegasta veiði og við fengum aflann í fimm holum,“ segir Hjörvar. Runólfur tekur undir með Hjörvari og segir að það sé hreint frábært að ná kolmunnanum á þessum slóðum.
Fram kom hjá skipstjórunum að nú verði sennilega farið að hyggja að veiðum á loðnu og íslenskri sumargotssíld og báðir lögðu áherslu á að ekki þyrfti að kvarta undan verkefnaskorti hjá uppsjávarskipum um þessar mundir. Í spjalli við skipstjórana kom einnig fram að veðurútlit fyrir norðan landið, þar sem loðnu yrði leitað, væri ekki gott næstu dagana.