Börkur NK kom til Neskaupstaðar á mánudagsmorgun að afloknum síldartúr austur af landinu. Afli skipsins var tæp 1000 tonn. Á Norðfirði mætti Börkur Beiti NK sem var að ljúka við að landa 1400 tonnum. Það má segja að síldarvertíðin sé í hámarki og allur aflinn fer til manneldisvinnslu. Skipstjóri á Berki í umræddri veiðiferð var Hálfdan Hálfdanarson og ræddi heimasíðan við hann þegar í land var komið. Fyrst var spurt hvar veitt hefði verið. „Við tókum þrjú hol í túrnum og hann var stuttur; 30 tímar höfn í höfn. Fyrsta holið var tekið norður á Glettinganesflakinu en tvö hin síðari í Seyðisfjarðardýpinu. Á sunnudagskvöldið var komin drullubræla og því var ekki unnt að halda áfram veiður. Ef veðrið hefði verið skaplegt hefðum við tekið eitt hol í viðbót. Við fengum 380 tonn í fyrsta holinu, síðan 260 tonn og loks 340 tonn. Þetta er hin fallegasta síld sem þarna veiðist, en hún er heldur smærri suður frá en norðar. Í Seyðisfjarðardýpinu fengum við 340-350 gramma síld á meðan síldin norðar er 370-390 grömm. Þessi síldarvertíð er búin að vera alveg glimrandi og eins þægileg og hægt er að hugsa sér – stuttir túrar enda stutt að fara. Við á Berki erum búnir að fiska eitthvað um 7000 tonn á vertíðinni og þetta getur eiginlega ekki verið mikið betra. Nú er kvótinn í norsk-íslenskri síld farinn að minnka en það eru svo sannarlega mörg verkefni framundan. Síldarvinnsluskipin eiga eftir að veiða um 10.000 tonn af kolmunna og svo er það íslenska sumargotssíldin. Ég held að Síldarvinnsluskipin eigi eftir að veiða um 10.000 tonn af íslenskri sumargotssíld. Venjulega hefur verið farið í íslensku síldina um miðjan nóvember en nú er spurningin hvað verður gert því framundan er þessi risaloðnuvertíð. Ég held að allir reikni með því að loðnuveiðar hefjist fyrir áramótin og menn þurfa að halda vel á spöðunum til að ná loðnukvótanum. Við á uppsjávarskipunum þurfum sko ekki að kvarta undan verkefnaskorti. Þetta er alger veisla,“ segir Hálfdan.
Þorgeir Baldursson fór með Berki í umrædda veiðiferð og tók myndir af því sem fram fór. Hér fylgja nokkrar myndir frá honum.