Bjartur NK í prufusiglingu í Japan.
 Bjartur NK í prufusiglingu í Japan.

Klukkan 8:30 að morgni föstudagsins 2. mars 1973 sigldi skuttogarinn Bjartur NK inn Norðfjörð í fyrsta sinn.  Togarinn var fánum prýddur og hafði þarna lokið lengstu samfelldu siglingu norðfirsks skips fyrr og síðar.  Bjartur var smíðaður í Japan og siglingin þaðan til heimahafnar tók 49 sólarhringa og var vegalengdin um 13.150 sjómílur.

Stjórn Síldarvinnslunnar hafði tekið ákvörðun um að láta smíða Bjart í árslok 1971 en þá hafði fengist nokkur reynsla af útgerð skuttogarans Barða NK sem fyrirtækið hafði fest kaup á árið 1970.  Í upphafi gerði Síldarvinnslan út síldveiðiskip en þegar síldin brást þurfti að hyggja að útgerð skipa sem hentuðu til botnfiskveiða og þá var skuttogarinn Barði NK keyptur.  Í upphafi var Bjarti ætlað að leysa Barða af hólmi en að athuguðu máli ákvað stjórn félagsins að gera út báða togarana og reyndar urðu togararnir í eigu fyrirtækisins þrír þegar Birtingur NK bættist í flotann árið 1977.

Árið 1971 hófst fyrir alvöru skuttogaravæðing landsins á vegum stjórnvalda og var þá ákveðið að láta smíða tíu togara í Japan.  Stjórn Síldarvinnslunnar ákvað að festa kaup á einu þessara skipa.  Japanstogararnir voru smíðaðir á tveimur stöðum í Japan, 6 í Muroran og 4 í Niigata.  Bjartur var smíðaður í Niigata.  Þrír aðrir togarar af þessum tíu voru keyptir til Austurlands: Brettingur til Vopnafjarðar, Ljósafell til Fáskrúðsfjarðar og Hvalbakur til Stöðvarfjarðar.

Bjartur NK kemur til heimahafnar í fyrsta sinn 2. mars 1973.  Ljósm. Guðmundur SveinssonMiðvikudaginn 25. október 1972 var togara Síldarvinnslunnar hleypt af stokkunum í Niigata-skipasmíðastöðinni og var honum þá gefið nafnið Bjartur.  Hinn 12. janúar 1973 var skipið síðan afhent Síldarvinnslunni og daginn eftir var lagt af stað í hina löngu siglingu til Íslands.  Á leiðinni til heimahafnar kom Bjartur við í tveimur höfnum: Honolulu á Hawaii og Balboa við Panamaskurðinn.