Börkur NK kominn til heimahafnar í Neskaupstað 10. febrúar 1973.
Ljósm. Guðmundur Sveinsson
|
Börkur NK var byggður í Þrándheimi í Noregi árið 1968. Upphaflegt nafns skipsins var Devonshire Bay
og var það í eigu norsks fyrirtækis þó heimahöfnin væri Hamilton á
Bermudaeyjum.Hinn 10. febrúar 1973 kom Börkur NK í fyrsta sinn til heimahafnar í
Neskaupstað. Kaup Síldarvinnslunnar á
skipinu þóttu marka tímamót enda um að ræða stærsta nótaskip sem Íslendingar höfðu
eignast. Stærð skipsins vakti verulegt
umtal og því var það gjarnan nefnt „Stóri Börkur“ manna á meðal.
Norska fyrirtækið gerði skipið út til nótaveiða við strendur Afríku og
var fiskimjölsverksmiðja um borð í því.
Útgerðin gekk vægast sagt illa og endirinn varð sá að skipinu var lagt
og hafði það legið um tíma þegar Síldarvinnslan festi kaup á því.
Börkur NK var fyrst og fremst keyptur til Neskaupstaðar með það í huga
að gera hann út til veiða á loðnu og kolmunna.
Þótti það kostur að hafa stórt og burðarmikið skip við þessar veiðar
enda stundum þörf á því að sigla langan veg með aflann.
Börkur NK með stórt síldarkast. Ljósm. Hjörvar Moritz
|
Börkur NK var rúmlega 711 tonn að stærð og fyrst eftir að
Síldarvinnslan eignaðist skipið gat það flutt 800 tonn að landi í hverri
veiðiferð. Það þótti mikill afli. Fljótlega var lestarrýmið aukið þannig að
skipið gat borið 1.150 tonn og loks hófst nýting á tönkum fremst í skipinu og
þá gátu farmarnir orðið 1.320 tonn.
Framan af gekk erfiðlega að finna hinu stóra skipi nægjanleg
verkefni. Loðnuvertíðir voru oftast
stuttar og kolmunnaveiðarnar gengu ekki nægilega vel. Ýmsar leiðir voru farnar til að nýta
skipið: Það var við síld- og
makrílveiðar í Norðursjó, loðnuveiðar í Barentshafi og veiðar á hrossamakríl
við Afríku. Þá var það einnig nýtt árum
saman yfir sumartímann til að sigla með ísaðan fisk til Grimsby þar sem fiskurinn
var seldur á markaði.