Rústir síldarverksmiðjunnar eftir snjóflóðið 20. desember 1974. Ljósmynd í eigu Skjala- og myndasafns NorðjarðarFöstudagurinn 20. desember 1974 er án efa mesti áfalladagurinn í sögu Síldarvinnslunnar og Neskaupstaðar. Þennan dag gengu Norðfirðingar til starfa sinna eins og venjulega og engan óraði fyrir hvað hann bæri í skauti sínu. Reyndar voru óvenju fáir við störf hjá Síldarvinnslunni þennan dag. Vegna jólaanna og óveðurs hafði verið ákveðið að vinna ekki þann fisk sem beið vinnslu í fiskvinnslustöðinni þennan dag og því voru einungis um 20 manns þar við störf í stað 100, þar af um þriðjungur smiðir og viðgerðarmenn. Um þetta leyti voru að jafnaði 10 manns við störf í síldarverksmiðjunni en þennan dag voru þeir einungis 4 meðal annars vegna þess að hluti starfsmannanna vann að viðgerðum á íbúðarhúsi í kaupstaðnum.

Það var svo sannarlega lán í óláni hve fáir voru við störf í atvinnufyrirtækjum Síldarvinnslunnar þegar ógæfan dundi yfir; tvö snjóflóð féllu með stuttu millibili og skildu eftir tortímingu og dauða.

Fyrra flóðið féll kl. 13.47. Það skall á síldarverksmiðjunni og áföstum mjölgeymsluhúsum og gereyðilagði þau ásamt smærri húsum sem stóðu norðan við verksmiðjuna. Þá braut flóðið í spón tvö starfsmannahús sem stóðu norðan við fiskvinnslustöðina og olli miklum skemmdum á fiskvinnslustöðinni. Síðara flóðið féll um kl. 14 nokkru utar. Eyðilagði það húsakost tveggja fyrirtækja, Steypusölunnar og Bifreiðaþjónustunnar og eitt íbúðarhús að auki, svonefnt Mánahús. Í hlíðinni ofan við síldarverksmiðjuna voru lýsis- og olíugeymar sem fyrra flóðið hreif með sér. Í olíutanki sem flóðið ruddi burt voru 900 lestir af svartolíu sem dreifðist um allstórt svæði auk þess sem töluvert magn fór í sjóinn. Olían olli mikilli mengun og verulegum vandræðum við björgunarstörf.

Þegar eftir flóðin hófust björgunaraðgerðir. Auk björgunarfólks frá Neskaupstað tóku sveitir sjálfboðaliða frá nágrannabyggðum þátt í aðgerðunum. Fyrst var öll áhersla lögð á að leita þeirra sem lent höfðu í flóðinu og var sex mönnum bjargað á lífi en átta höfðu bjargað sér af eigin rammleik. Einum manni var bjargað eftir að hann hafði legið í þröngri þró undir snjófargi í 20 tíma. Fljótlega kom í ljós að alls höfðu tólf manns týnt lífi í snjóflóðunum, þar af voru sjö fastir starfsmenn Síldarvinnslunnar. Það ríkti sorg á öllu landinu vegna þessa voðaatburðar.

Segja má að strax eftir að hreinsunarstarfi eftir snjóflóðin lauk hafi verið hafist handa við endurreisn atvinnulífsins í Neskaupstað. Þeirri sögu verða ekki gerð skil hér.

Á morgun, laugardaginn 20. desember, verður kyrrðarstund haldin í Norðfjarðarkirkju og hefst hún kl. 15. Þá verður þess minnst að 40 ár eru liðin frá því að snjóflóðin féllu. Að kyrrðarstundinni lokinni, eða kl. 16, verður opið hús í Egilsbúð í boði Fjarðabyggðar. Þar mun forseti bæjarstjórnar flytja ávarp og eins verður þar hluti ljósmyndasýningarinnar Flóðið til sýnis. Þá munu gestir geta skoðað uppdrætti að minningarreit sem opnaður verður almenningi á næsta ári en reitnum verður komið upp til minningar um þá sem látið hafa lífið í snjóflóðum á Norðfirði.