Frá föstudegi til þriðjudags var skipað út rúmum 4900 tonnum af fiskimjöli frá fiskimjölsverksmiðjum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Alls lestuðu þrjú skip mjölið þessa daga. Fyrsta skipið, Hav Scandic, lestaði 750 tonn í Neskaupstað og 520 tonn á Seyðisfirði. Annað skipið, Saxum, lestaði 2450 tonn í Neskaupstað og hið þriðja, Havfragt, lestaði rúm 1200 tonn á Seyðisfirði.
Að sögn Hafþórs Eiríkssonar, verksmiðjustjóra í Neskaupstað, er það ekki algengt að svona miklu magni af mjöli sé skipað út á jafn skömmum tíma, en verðmæti mjölsins sem þessi þrjú skip sóttu er um 1,3 milljarður króna.