Torfan sem togað var í í síðasta holi Polar Ammassak kom skýrt fram á mælum skipsins.
Ljósm. Guðbjartur Logi Gunnþórsson

Grænlenska uppsjávarskipið Polar Ammassak kom til Neskaupstaðar um miðnætti með fyrsta loðnufarm ársins, um 2.000 tonn. Löndun úr skipinu hófst snemma í morgun en aflinn verður unninn í mjöl og lýsi. Aflinn fékkst í sex holum um 80 mílur austnorðaustur af Langanesi. Í fyrstu fimm holunum fengust 100 – 350 tonn en í síðasta holinu fengust 600 tonn.

Polar Ammassak mun halda til loðnuveiða á ný strax að löndun lokinni.

Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson mun væntanlega halda til loðnuleitar á morgun og eru bundnar vonir við að loðnuleit á næstunni muni leiða til kvótaaukningar.