DSC 2938 a

Miklar annir hafa ríkt í fiskvinnslustöð Gullbergs á Seyðisfirði á árinu 2015. Ljósm: Ómar Bogason

Síldarvinnslan hf. festi kaup á fiskvinnslustöðinni á Seyðisfirði og togaranum Gullver í lok árs 2014 og dótturfélagið Gullberg hefur síðan annast reksturinn. Mikill vöxtur hefur verið í starfsemi fiskvinnslustöðvarinnar frá eigendaskiptunum og jókst móttekið hráefni á árinu 2015 um 83,2% frá árinu áður. Á árinu 2015 tók stöðin á móti 3.384 tonnum til vinnslu á meðan móttekið hráefni nam 1.847 tonnum á árinu 2014.

                Aflinn sem barst til fiskvinnslustöðvarinnar á síðasta ári kom frá Gullver NS (um 1.800 tonn), frá Bjarti NK (um 750 tonn), frá skipum Samherja (um 500 tonn) og frá skipum Bergs-Hugins (um 300 tonn).

                Adolf Guðmundsson rekstrarstjóri Gullbergs segir að árið 2015 hafi gengið afar vel bæði hvað varðar veiðar og vinnslu.  „Frá því að Síldarvinnslan kom að þessu verkefni hefur allt gengið eins og í sögu og reyndar betur en ég reiknaði með,“ sagði Adolf. „ Væntingarnar í upphafi hafa nánast allar gengið eftir. Það hefur orðið gjörbreyting á rekstrinum og ekki fallið úr vinnsludagur frá eigendaskiptunum. Menn geta ekki verið annað en sáttir við gang þessara mála hér á Seyðisfirði,“ sagði Adolf að lokum.

                Rétt er að geta þess að vegna aukningar á afla til vinnslu á Seyðisfirði hefur úthlutun á byggðakvóta til staðarins nánast fallið niður. Byggðakvóti til Seyðisfjarðar á árinu 2014 nam 134 tonnum og má gera ráð fyrir að slíkur kvóti skapi um það bil tvö og hálft ársverk. Byggðakvótinn á árinu 2015 nam hins vegar einungis 15 tonnum. Enn og aftur má spyrja hvort þær reglur sem gilda um úthlutun byggðakvóta séu eðlilegar og réttlátar, en hér er um að ræða alvarlegri áhrif á atvinnulíf Seyðisfjarðar en samdráttaraðgerðir Landsbankans á staðnum fyrir skömmu.