Nemendahópurinn frá Norðfirði fyrir framan Jón Kjartansson. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonDagana 23. júní til 11. júlí starfaði Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar en skólinn er samvinnuverkefni Austurbrúar, Vinnuskóla Fjarðabyggðar og sjávarútvegsfyrirtækjanna Eskju, Loðnuvinnslunnar og Síldarvinnslunnar. Öllum ungmennum í Fjarðabyggð sem fædd voru árið 2000 stóð til boða að sækja skólann og alls útskrifuðust 55 nemendur úr skólanum eða 85% árgangsins. Verður það að teljast afar góð þátttaka en á því tímabili sem skólinn starfaði var nokkuð um að ungmenni úr árgangnum væru í sumarleyfisferðum með fjölskyldum sínum.

Meginmarkmiðið með skólahaldinu er að auka þekkingu og skilning ungmennanna á þeirri grunnatvinnugrein sem sjávarútvegurinn er en greinin er í reynd undirstaða byggðarlaganna í Fjarðabyggð og allra byggðakjarna við sjávarsíðuna á Austurlandi. Í skólanum voru fluttir fyrirlestrar um eðli og sögu sjávarútvegs og eins vakin athygli á þeim fjölbreyttu störfum sem tengjast atvinnugreininni beint og óbeint. Til að auka skilning nemendanna á námsefninu var fjöldi fyrirtækja heimsóttur, jafnt sjávarútvegsfyrirtæki sem fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveginn. Þá var farið um borð í fiskiskip og þær aðstæður sem sjómennirnir búa við skoðaðar.           

Nemendahópurinn frá Eskifirði og Reyðarfirði í heimsókn hjá Matís. Ljósm. Elvar Ingi ÞorsteinssonKennt var á þremur stöðum í Fjarðabyggð; Neskaupstað, Fáskrúðsfirði og Eskifirði. Á hverjum stað var kennt í eina viku og á lokadegi kennslunnar var ferðast um sveitarfélagið, farið í heimsóknir og  efnt til uppskeruhátíðar ásamt því sem útskriftarskírteini voru afhent. Til dæmis heimsóttu allir hóparnir fiskimjölsverksmiðju Eskju á Eskifirði, botnfiskvinnslu Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði og uppsjávarfrystihús Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Kom það nemendum verulega á óvart hve tæknistig vinnslustöðvanna er hátt og eins vöktu tæki og veiðibúnaður fiskiskipanna mikla athygli.           

Allir námshóparnir fóru í heimsókn í Verkmenntaskóla Austurlands þar sem skólameistari kynnti námsleiðir og sýndi kennsluaðstöðu. Vakti hann athygli nemendanna á því hve mörg störf á Austurlandi tengjast sjávarútveginum beint og óbeint. Flest iðnfyrirtæki þjóna sjávarútveginum og stór hluti vélstjóra starfar annað hvort á fiskiskipum eða hjá landvinnslum sjávarútvegsfyrirtækjanna. Meira að segja tengist afkoma hárgreiðslustofanna að verulegu leyti því hvernig sjávarútvegsfyrirtækjunum vegnar. Sjávarútvegurinn er því sannkölluð grunnatvinnugrein í austfirsku samfélagi.
  
Nemendahópurinn frá Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði í heimsókn í fiskimjölsverksmiðju Eskju. Ljósm. Elvar Ingi ÞorsteinssonÍ Verkmenntaskólanum var einnig fjallað um þær námsgreinar á háskólastigi sem tengjast sjávarútvegi  eða geta tengst greininni. Í því samhengi var farið í heimsókn til Matís í Neskaupstað þar sem meðal annars fara fram efnamælingar á hráefni og framleiðsluafurðum sjávarútvegsfyrirtækjanna. Þar fengu nemendur að kynnast því hvernig títrað er með sýru og basa og vöktu litabreytingar eftir sýrustigi mikla lukku á meðal nemendahópanna. Þetta var svo sannarlega spennandi.
             
Ekkert fer á milli mála að námið í skólanum breytti sýn nemendanna á sjávarútveginn og opnaði augu þeirra fyrir mikilvægi þátta eins og til dæmis gæða- og markaðsmálum. Þá varð nemendum einnig  ljóst hve störf sem tengjast sjávarútvegi eru ótrúlega fjölbreytt. Að sjávarútvegi starfa sjómennirnir sem gegna ýmsum hlutverkum, starfsfólk við fiskvinnslu, iðnaðarmenn á ýmsum sviðum, fólk með menntun á sviði rannsókna, markaðsmála og fjármála svo nokkuð sé nefnt. Þá byggja aðrar atvinnugreinar í sjávarbyggðunum að miklu leyti á starfsemi sjávarútvegsfyrirtækjanna  og þeim verðmætum sem þau skapa.