Beitir NK hélt til kolmunnaveiða frá Neskaupstað 13. febrúar sl. Hann kom við í Færeyjum en hóf veiðar á kolmunnamiðunum suðvestur af Írlandi sl. sunnudag. Veiðarnar hafa gengið vel og hafði heimasíðan samband við Tómas Kárason skipstjóra í dag. „Við höfum verið að veiða um 200 sjómílur suðvestur af Írlandi eða um 100 mílur vestur af hafsvæði sem nefnist Porcupine. Frá Norðfirði á þessi mið eru um 900 sjómílur eða rúmlega þriggja sólarhringa sigling. Hér er svakalega mikið að sjá, lóðningarnar eru alveg rosalegar. Þetta er aðgæsluveiði, hættan er sú að fá of mikið. Stundum vorum við að hífa 300-400 tonn á tveggja tíma fresti. Við erum komnir með rúmlega 3.000 tonn og vorum að leggja af stað heim til löndunar. Við verðum komnir til Neskaupstaðar seinni partinn á sunnudag. Beitir hefur verið eina íslenska skipið á miðunum að undanförnu en Guðrún Þorkelsdóttir SU var komin á undan okkur og lagði af stað í land með 1.500 tonn í fyrrinótt. Hér er talsverður fjöldi af skipum annarra þjóða; Rússar, Norðmenn og Færeyingar, “ sagði Tómas.