Elín Hjaltalín Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur og Jón Sen skurðlæknir hjá ristilspeglunartækinu. Elín Hjaltalín Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur og Jón Sen skurðlæknir hjá ristilspeglunartækinu.Sl. gamlársdag var undirritaður samningur á milli Síldarvinnslunnar og Heilbrigðisstofnunar Austurlands um að öllum starfsmönnum Síldarvinnslunnar sem náð hafa 50 ára aldri gefist kostur á ristilspeglun þeim að kostnaðarlausu. Fram kom að Síldarvinnslan myndi greiða allan kostnað vegna speglananna og að auki færa Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað að gjöf nýtt speglunartæki. Mun nýja tækið gera sjúkrahúsinu betur kleift en áður að sinna almennri þjónustu á þessu sviði.
 
Í gær heimsóttu tíðindamenn heimasíðunnar Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað og hittu þar að máli Jón Sen lækni en hann mun annast speglanirnar þar. Jón var að vonum ánægður með þá þróun sem átt hefur sér stað hvað varðar speglanir á sjúkrahúsinu. „Nýja tækið var tekið í notkun nýlega og það gjörbreytir allri aðstöðu okkar,“ sagði Jón. „Það er mikil eftirspurn eftir ristilspeglun um þessar mundir og nú getum við gert tvær speglanir á klukkustund með þeim tveimur tækjum sem eru til staðar þannig að segja má að afköstin hafi tvöfaldast. Það var biðlisti í ristilspeglanir en nú fer hann hratt minnkandi. Hins vegar eru mikil verkefni framundan og þá skipta speglanirnar á starfsmönnum Síldarvinnslunnar miklu máli. Þetta nýja tæki er algert topptæki og gott að vinna með því þannig að þessi þáttur starfseminnar á eftir að ganga vel.
 
Í töluverðan tíma hefur verið skorað á stjórnvöld að tryggja fjármagn til skipulegrar skimunar á ristilkrabbameini enda sú tegund krabbameins hin þriðja algengasta hjá báðum kynjum. Það hefur ekki tekist að fá fjármagn í þetta verkefni og þá tekur fólkið sjálft og fyrirtæki eins og Síldarvinnslan málin í sínar hendur. Ákvörðun Síldarvinnslunnar er til hreinnar fyrirmyndar og ég þykist vita að mörg fyrirtæki veiti henni athygli. Ef ristilkrabbamein finnst á frumstigi eru yfirgnæfandi líkur á lækningu en þetta krabbamein veldur einkennum tiltölulega seint og því er skimun svo mikilvæg. Með skimuninni sem framkvæmd er með speglun sjást meira að segja forstigseinkenni sjúkdómsins og þá er unnt að grípa strax inn í. Það borgar sig í reyndinni fyrir alla að fara í ristilspeglun þegar tilteknum aldri er náð, speglunin sjálf tekur um hálfa klukkustund en hins vegar tekur sjúklinginn um heilan dag að undirbúa sig fyrir speglunina.“
 
Að sögn Hákons Ernusonar starfsmannastjóra Síldarvinnslunnar eru starfsmenn fyrirtækisins, sem eru 50 ára og eldri, 99 talsins og eiga þeir allir rétt að ristilspeglun á kostnað þess. Gert er ráð fyrir að verkefnið hefjist á næstu dögum og þá verði fyrstu einstaklingarnir í starfsmannahópnum boðaðir í speglunina. Að mati Hákons er einkar ánægjulegt að geta hafið verkefnið í sjálfum mottu-mars. Síðan mun aukinn kraftur settur í verkefnið í maímánuði og gert er ráð fyrir að síðustu starfsmennirnir verði kallaðir í speglun undir lok ársins. Á haustmánuðum verður tilkynnt um fyrirkomulag  speglana á starfsmönnum Síldarvinnslunnar í Helguvík og á Seyðisfirði.