Fjölmenni sótti athöfnina þegar nýjum Berki NK var gefið nafn.
Ljósm. Ína D. Gísladóttir

Sjómannadagshelgin var mikil hátíðarhelgi í Neskaupstað þrátt fyrir að sóttvarnaráðstafanir hefðu sín áhrif á dagskrána. Það var ekki síst koma nýs Barkar sem setti svip á hátíðina og ánægjulegt var að sjá hvaða áhrif nýja skipið hafði í bænum; fögnuðurinn var ótvíræður og bjartsýni sveif yfir vötnum. Jafnt börn sem fullorðnir brostu út að eyrum og á annað þúsund manns komu til að skoða hið glæsilega fley á laugardag og á sjómannadaginn. Fólki var hleypt um borð í hæfilega stórum hópum og skipverjar fylgdu hverjum hópi og lýstu því sem fyrir augu bar. Í brúnni tók síðan skipstjóri á móti hópunum og fræddi fólk um allan þann búnað sem þar var að finna, vélstjórar fræddu um vélbúnaðinn og í borðsal og eldhúsi upplýsti kokkurinn um allt sem þar fer fram. Eldri sjómenn voru duglegir að bera saman aðstöðuna um borð í nýja Berki og þá aðstöðu sem áhöfnum var boðið upp á á fiskibátum fyrri tíma. Sérstaklega höfðu þeir orð á því að aldrei hefði hvarflað að þeim að gufubað, bíósal og líkamsræktarsal yrði að finna um borð í fiskiskipi en áhöfn Barkar mun njóta slíkrar aðstöðu. Þá dáðust þeir að íbúðarklefunum í Berki og báru þá saman við lúkarinn í bátunum áður fyrr. Allur frágangur um borð í nýja skipinu þykir einstaklega vandaður og allt umhverfi áhafnarinnar hið snyrtilegasta. Þá er einnig áberandi hve öllum vélbúnaði er haganlega fyrir komið og hve aðgengilegur hann er.

Komu nýja Barkar NK var allstaðar fagnað. Myndin er af börnum í elstu deild leikskólans Eyrarvalla í Barkarbolum, en skipasmíðastöðin Karstensens gaf bolina. Allir sem skoðuðu Börk um helgina voru leystir út með bolum.
Ljósm. Jóhanna Smáradóttir

Á sjómannadaginn fór fram athöfn þar sem skipinu var formlega gefið nafn og það blessað. Fjölmenni var við athöfnina en þess gætt að gott bil væri á milli fólksins. Blásarasveit Tónskóla Neskaupstaðar annaðist tónlistarflutning og nemendur 9. bekkjar Nesskóla sýndu atriði úr Dýrunum í Hálsaskógi. Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, stjórnaði athöfninn en auk hans tóku til máls þeir Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður og Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Séra Dagur Fannar Magnússon blessaði skipið og Anna Margrét Sigurðardóttir, eiginkona Gunnþórs, gaf því nafnið Börkur. Við nafngiftina var að sjálfsögðu brotin kampavínsflaska og flaskan sú á sér merka sögu. Þórður M. Þórðarson, sem gegndi starfi skrifstofustjóra Síldarvinnslunnar í þrjátíu ár og allir Norðfirðingar þekktu, færði forstjóra fyrirtækisins flöskuna fyrir mörgum árum með þeim fyrirmælum að alls ekki væri ætlast til að innihaldið yrði drukkið heldur yrði flaskan notuð þegar næstu nýsmíði Síldarvinnslunnar yrði gefið nafn. Því miður lifði Þórður ekki að sjá flöskuna splundrast en hann lést árið 2016.

Anna Margrét Sigurðardóttir sá um að gefa nýja skipinu nafn.
Ljósm. Guðlaugur B. Birgisson

Við athöfnina á sjómannadaginn færði forstjóri Síldarvinnslunnar Björgunarsveitinni Gerpi 2 milljónir króna í styrk, félaginu sem vinnur að kaupum nýs björgunarbáts til Neskaupstaðar 3 milljónir, Hollvinasamtökum Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað 2 milljónir og Blásarasveit Tónskóla Neskaupstaðar 1 milljón.

Í athöfninni kom fram í máli Gunnþórs forstjóra að það hefði verið einstaklega ánægjulegt að takast á við það verkefni að smíða nýtt skip. Lofaði hann mjög samstarfið við skipsmíðastöð Karstensens í Skagen í Danmörku sem hann álítur að sé einfaldlega besta skipasmíðastöð í heimi í smíði skipa til uppsjávarveiða. Eins sagði hann að allt samstarf við Samherja hefði verið eins og best var á kosið en systurskip Barkar, Vilhelm Þorsteinsson EA, var einnig smíðað hjá Karstensens og kom það nýtt til landsins í aprílmánuði sl. Þakkaði Gunnþór Karli Jóhanni Birgissyni sérstaklega, en hann var eftirlitsmaður Síldarvinnslunnar við smíði skipsins og eins lofaði hann þátt vélstjóranna Harðar Erlendssonar og Jóhanns Gíslasonar.

Við athöfnina afhenti Gunnþór B. Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar myndarlega styrki. 
Ljósm. Guðlaugur B. Birgisson

Brátt mun Börkur halda til veiða og þá munu margir fylgjast með hvernig gengur að fiska á hið glæsilega skip. Skipið er 89 metrar að lengd, 16,6 metrar að breidd og 4.140 brúttótonn. Það er búið tveimur aðalvélum af gerðinni Rolls Royce Bergen og eru þær tæplega tíu þúsund hestöfl. Í skipinu eru þrettán kælitankar fyrir afla og er samanlagt rúmmál þeirra 3.440 rúmmetrar. Að öðru leyti er í skipinu allur sá besti búnaður sem finnst. Að sjálfsögðu eru miklar væntingar gerðar til skipsins og er ekki efast um að það mun standa undir þeim.