Ísfisktogararnir hafa að undanförnu verið að veiðum í erfiðu tíðarfari og þeir hafa gjarnan hrakist af einum miðum á önnur undan veðri. Gullver NS kom til Seyðisfjarðar að afloknum stuttum túr sl. laugardag og var afli skipsins 60 tonn, mest þorskur og ýsa. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að ýsan hafi fengist í Litladýpi og þorskurinn í Reyðarfjarðardýpi og á Gerpisflaki. Segir hann að veðrið hafi vægast sagt verið hundleiðinlegt allan túrinn. Gullver hélt til veiða á ný síðdegis í gær.
Bergur VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum í gær og segir Jón Valgeirsson að veiðiferðin hafi verið erfið þó ekki sé hægt að kvarta undan aflanum. „Það var vond bræla allan tímann. Veðrið var sérstaklega slæmt úti í kanti og því vorum við grunnt allan tímann. Segja má að við höfum verið á flótta undan veðri alla veiðiferðina. Við byrjuðum á Öræfagrunni í haugabrælu, fórum þaðan upp undir Ingólfshöfða í skárra veður en brátt gerði vitlaust veður þar og þá var haldið í Meðallandsbugtina og klárað þar í skítaveðri,“ segir Jón.
Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey VE, hefur í reynd sömu sögu að segja og Jón. „Þetta var alger brælutúr vægt til orða tekið. Þó verður að segjast að það fiskaðist ágætlega og við lönduðum fullfermi í Eyjum í gær. Við hófum veiðar í Skeiðarárdýpi og á Öræfagrunni en veðrið var svo vitlaust að við fluttum okkur á Ingólfshöfðann. Þaðan var svo flúið í Meðallandsbugtina út af Skatárósum. Þar var heldur minni alda en vindurinn hins vegar jafn mikill og annars staðar. Um tíma var veðrið alveg snarklikkað og ég sá vindmælirinn fara upp í 35 metra. Þegar mest gekk á var ástandið um borð afar erfitt en það var allt á fleygiferð. Meðal annars sprakk upp kæliskápur hjá kokkinum og allt fór út um allt. Það var heilmikil verkun á elhúsinu eftir ósköpin. Það er verulega notalegt að koma í land að loknum túr sem þessum,“ segir Egill Guðni.
Gullver hélt á ný til veiða síðdegis í gær, en Bergur og Vestmannaey munu væntanlega láta úr höfn á fimmtudag eða föstudag en það fer eftir veðri.