Á Seyðisfirði var landað fullfermi úr ísfisktogaranum Gullver NS í gær. Aflinn var mjög blandaður; þorskur, ufsi, karfi og ýsa. Þórhallur Jónsson, skipstjóri, segir að vel hafi fiskast í veiðiferðinni. „Við fórum allt vestur á Öræfagrunn, en þar fékkst ufsi. Karfa fengum við í Hornafjarðardýpinu. Þorskur fékkst í Hvalbakshallinu og loks enduðum við í Lónsbugtinni. Í túrnum var fínasta veður þar til um hádegisbil á mánudag, en þá kom suðvestan bræla. Við gerum ráð fyrir að fara út í kvöld en það er allt í hægagangi hjá okkur eins og öðrum togurum vegna kórónuveirunnar. Nú förum við bara fjóra túra í mánuði í stað sjö eða átta þannig að segja má að skipið sé á hálfum afköstum um þessar mundir. Vonandi fer þetta að lagast, en það er ekkert annað að gera en að sýna þolinmæði,“ segir Þórhallur.