Frá loðnumiðunum í gær. Ljósm. Haraldur EgilssonFrá loðnumiðunum í gær. Ljósm. Haraldur EgilssonLoðnuveiðarnar hafa gengið misjafnlega síðustu daga. Ágæt veiði var sl. föstudag en um helgina gekk ver. Þá var kaldafýla á miðunum og lítið fékkst við Reykjanes og í Faxaflóa. Á sunnudagskvöld fannst loðna út af Þjórsárósum og á mánudag var flotinn kominn austur fyrir Eyjar en afli var misjafn. Í gær brast síðan á með hörkuveiði vestur af Vestmannaeyjum og eru öll Síldarvinnsluskipin á landleið með fullfermi eða nánast fullfermi.
 
Frést hefur af loðnu allvíða og fékk Polar Amaroq til dæmis 700 tonn í tveimur köstum á Faxaflóa í gær en var komin austur í morgun á þau mið sem best fiskaðist á í gær. Þá voru bátar að kasta í Meðallandsbugt í gær og fregnir af vísbendingum um loðnu út af Vestfjörðum hafa borist. 
 
Þó að víða sé veiðivon fyrir loðnuflotann er veðurspáin slæm og ekki bjart útlit fyrir veiðarnar næstu dagana af þeim sökum.