Beitir NK er á leið til heimahafnar með 1250 tonn af sumargotssíld úr Breiðafirðinum. Er skipið væntanlegt í fyrramálið og þá mun vinnsla hefjast á ný í fiskiðjuverinu en hlé hefur verið á vinnslunni meðal annars vegna ótíðar. Atli Rúnar Eysteinsson stýrimaður á Beiti segir að þessi veiðiferð hafi verið heldur sérkennileg en skipið var fimm daga í Breiðafirðinum en gat ekkert aðhafst vegna brælu í eina þrjá daga. „Það er mjög erfitt að athafna sig þarna inn á milli skerjanna á svona stóru skipi í miklum vindi“, sagði Atli Rúnar,“ þannig að við gátum ekkert gert á meðan veðrið gekk yfir. Síðan er alls ekki mikið að sjá af síld ennþá en menn eru vongóðir; hún hlýtur að fara að ganga þarna inn fljótlega. Við fengum 90 tonn í fyrsta kastinu okkar en í næsta kasti rifnaði nótin og ekkert kom út úr því. Jóna Eðvalds SF gaf okkur síðan 370 tonn. Börkur NK tók síðan kast sem við áttum að njóta góðs af og það reyndist ekki vera neitt smákast því í nótinni voru 1000 tonn. Við fengum 800 tonn af því en hann dældi síðan 200 tonnum í sig. Á þessu sést að það gengur á ýmsu í Breiðafirðinum“.