Nú þegar loðnuvertíð er lokið taka við ný verkefni hjá Síldarvinnslunni og það er að mörgu að hyggja. Hvað uppsjávarskipin varðar þá eru viðhaldsverkefni á dagskrá. Bjarni Ólafsson AK er farinn til Færeyja þar sem hann fer í slipp og Barði NK er kominn í slipp á Akureyri. Beitir NK fer í vélaupptekt í Neskaupstað ásamt því að öðrum viðhaldsverkefnum verður sinnt þar um borð. Börkur NK fer væntanlega ekki í slipp fyrr en í byrjun júnímánaðar og það verður í Danmörku. Í fiskiðjuverinu í Neskaupstað er hafinn undirbúningur fyrir komandi makrílvertíð og þar er í mörg horn að líta.
Gert er ráð fyrir að kolmunnaveiðar uppsjávarskipanna hefjist í kringum 10. apríl á gráa svæðinu suður af Færeyjum eða í færeyskri lögsögu.