Flutningabílar koma út úr Oddsskarðsgöngum. Ljósm. Rúnar GunnarssonFlutningabílar koma út úr Oddsskarðsgöngum. Ljósm. Rúnar GunnarssonKlukkan 10 að morgni sl. fimmtudags var slegið í gegn í Norðfjarðargöngum en tæplega tvö ár eru liðin frá upphafi gangaframkvæmdanna. Gert er ráð fyrir að ráðherra komi austur hinn 25. þessa mánaðar og sprengi síðasta haftið við hátíðlega athöfn. Það verða gleðileg tímamót í sögu þessara framkvæmda. Þó svo að lokið verði við að opna leiðina í gegnum fjallið gera áætlanir ekki ráð fyrir að  göngin verði tekin í notkun fyrir almenna umferð fyrr en á árinu 2017.
 
Ný  Norðfjarðargöng munu valda byltingarkenndum breytingum í samgöngum á Austurlandi en með tilkomu þeirra þarf ekki lengur að fara yfir Oddsskarð og í gegnum Oddsskarðsgöng sem eru í yfir 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Þeir sem sækja atvinnu eða þjónustu yfir Oddsskarð munu svo sannarlega upplifa þær framfarir sem nýju göngin munu hafa í för með sér.
 
Fyrir Síldarvinnsluna mun tilkoma nýju ganganna valda heilmiklum þáttaskilum. Þó svo að langmest af afurðum fyrirtækisins sé flutt á brott með skipum þá er töluverðum hluta þeirra ekið í gámum til útflutnings frá öðrum höfnum. Að undanförnu hafa oft um 1000 gámar á ári verið fluttir landleiðis yfir Oddsskarð frá Neskaupstað en það eru um 20 gámar á viku að jafnaði. Bílarnir sem annast gámaflutningana þurfa að nota sérbúna vagna til að komast í gegnum Oddsskarðsgöng auk þess sem aksturinn yfir fjallveginn er bæði erfiður og áhættusamur, ekki síst yfir vetrartímann. Þá er slit á flutningabílunum sem aka þessa leið afar mikið.
 
Hin nýju Norðfjarðargöng munu gjörbreyta allri aðstöðu til landflutninga á afurðum Síldarvinnslunnar frá Neskaupstað auk þess sem tilkoma ganganna mun draga úr kostnaði og áhættu vegna þeirra. Þessi nýju göng eru svo sannarlega þjóðþrifaframkvæmd og fagnaðarefni.