• Hagnaður ársins nam 5,6 milljörðum króna
  • Opinber gjöld fyrirtækisins og starfsmanna þess námu 4 milljörðum króna 
  • Eiginfjárhlutfall er 54%
  • Fiskimjölsverksmiðjur félagsins tóku á móti 206 þúsund tonnum af hráefni
  • Fiskiðjuverið tók á móti 80 þúsund tonnum af hráefni
  • Um frystigeymslur félagsins fóru 85 þúsund tonn af afurðum
  • Framleiddar afurðir voru 101 þúsund tonn

Rekstur
Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2013 voru alls 23,6 milljarðar króna og rekstrargjöld námu 16,2 milljörðum króna. EBITDA var 7,4 milljarðar króna.  Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 168 milljónir króna. Hagnaður samstæðunnar fyrir reiknaða skatta nam 6,9 milljörðum króna. Reiknaðir skattar námu 1325 milljónum króna og var hagnaður ársins því tæpir 5,6 milljarðar króna.  

Gjöld til hins opinbera
Síldarvinnslan greiddi 2,8 milljarða til hins opinbera. Greiddur tekjuskattur á árinu var 1350 milljónir króna. Veiðileyfagjöld námu 940 milljónum á síðasta fiskveiðiári og önnur opinber gjöld 520 milljónum 

Fjárfestingar
Rafvæðingu fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað var lokið á árinu.  Skipt var á skipum þegar Beitir var seldur til Noregs og nýr Beitir keyptur.

Haldið var áfram á braut uppbyggingar í fiskiðjuveri félagsins. 

Efnahagur
Heildareignir samstæðunnar í árslok 2013 voru bókfærðar á 45,3 milljarða króna. Veltufjármunir voru bókfærðir á 14,5 milljarða króna og skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 20,9  milljörðum króna. Eigið fé samstæðunnar í árslok var 24,4 milljarðar króna.   Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 54%.

Starfsemi
Útgerð félagsins gekk vel á árinu. Afli bolfiskskipa samstæðunnar var 15.500 tonn, aflaverðmæti 3.910 milljónir króna. Afli uppsjávarskipa var 128 þúsund tonn, aflaverðmæti 4.675 milljónir. Heildaraflaverðmæti skipa var 8.600 milljónir króna og aflamagn 143.000 tonn á árinu. 

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti um 206 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2013. Framleidd voru 41 þúsund tonn af mjöli og 15 þúsund tonn af lýsi. Samtals voru þannig framleidd 56 þúsund tonn af mjöli og lýsi á árinu og verðmætið um 11.554 milljónir króna.

Í fiskiðjuverið var landað rúmum 80 þúsund tonnum af hráefni. Framleiddar afurðir voru 41.000 tonn. Þar vega loðnuafurðir þyngst og síðan síldarafurðir og loks makrílafurðir.  Verðmæti framleiðslunnar var 6.880 milljónir króna. 

Um frystigeymslurnar fóru 85 þúsund tonn af afurðum á árinu.

Samtals framleiðsla á afurðum nam 101.000  tonnum á árinu 2013 að verðmæti tæplega 20 milljarðar króna.

Starfsmenn
Hjá samstæðu Síldarvinnslunnar starfa um 300 manns til sjós og lands. Launagreiðslur félagsins námu 3.320 milljónum króna á árinu 2013 og greiddu starfsmennirnir 1160 milljónir í skatta.

Aðalfundur
Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. var haldinn föstudaginn 6. júní.  Á fundinum var samþykkt að greiða 2 milljarða í arð. 

Fréttatilkynning frá Síldarvinnslunni hf.föstudaginn 6. júní 2014.
Nánari upplýsingar veitir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri, í síma 896 4760.