DSC04141 2

  • Hagnaður ársins nam 6,2 milljörðum króna.
  • Opinber gjöld af starfsemi fyrirtækisins og starfsmanna þess námu 5,1 milljarði króna. 
  • Eiginfjárhlutfall er 62%.
  • Afli skipa samstæðunnar var 155 þúsund tonn.
  • Fiskimjölsverksmiðjur félagsins tóku á móti 263 þúsund tonnum af hráefni.
  • Fiskiðjuverið tók á móti 52 þúsund tonnum af hráefni til frystingar.
  • Um frystigeymslur félagsins fóru 70 þúsund tonn af afurðum.
  • Framleiddar afurðir voru 115 þúsund tonn.

 

Rekstur

Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2015 voru alls 27 milljarðar króna og rekstrargjöld námu 18,9 milljörðum króna.  EBITDA var 8,2 milljarðar króna.   Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 410 milljónir króna. Hagnaður samstæðunnar fyrir reiknaða skatta nam 7,6 milljörðum króna. Reiknaður tekjuskattur nam 1.420 milljónum króna og var hagnaður ársins því 6,2 milljarðar króna.  

Gjöld til hins opinbera

Á árinu 2015 greiddi Síldarvinnslan og starfsmenn 5,1 milljarð króna  til hins opinbera. Greiddur tekjuskattur er 1.240 milljónir króna og veiðigjöld voru tæplega 900 milljónir. Á meðal gjalda sem greidd voru á árinu eru 82 milljónir króna í stimpilgjöld vegna kaupa fyrirtækisins á Beiti NK og 100 milljónir króna í kolefnis- og raforkugjald.

Fjárfestingar

Samtals námu fjárfestingar félagsins 5,4 milljörðum króna og voru þær þáttur í að auka verðmætasköpun félagsins ásamt því að bæta aðbúnað og öryggi starfsmanna. Helstu fjárfestingarnar voru kaup á nýju uppsjávarveiðiskipi frá Danmörku, Beiti NK 123. Skipið var smíðað árið 2014 og ber 3.200 tonn. Eins var haldið áfram á braut uppbyggingar í uppsjávarvinnslu félagsins. Reist var viðbygging austan við fiskiðjuverið og er sú bygging liður í að auka afköst vinnslunnar í 900 til 1.000 tonn á sólarhring.

Efnahagur

Heildareignir samstæðunnar í árslok 2015 voru bókfærðar á 54,4 milljarða króna. Veltufjármunir voru bókfærðir á 9,1 milljarða króna og skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 20,7  milljörðum króna. Eigið fé samstæðunnar í árslok var 33,7 milljarðar króna.   Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 62%.

Starfsemi

Útgerð félagsins gekk vel á árinu. Afli bolfiskskipa samstæðunnar var 19.500 tonn að verðmæti 6,1 milljarður króna. Afli uppsjávarskipa var 135 þúsund tonn að verðmæti 4,4 milljarðar. Heildaraflaverðmæti afla skipanna var 10,5 milljarðar króna og aflamagn 155.000 tonn á árinu. 

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti um 263 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2015. Framleidd voru 52 þúsund tonn af mjöli og 15 þúsund tonn af lýsi. Samtals voru framleidd 67 þúsund tonn af mjöli og lýsi á árinu að verðmæti 13,1 milljarðar króna.

Í uppsjávarvinnsluna var landað 52 þúsund tonnum af hráefni. Framleiddar afurðir voru 32.000 tonn. Þar vega makrílafurðir þyngst og síðan síldarafurðir og loks loðnuafurðir.  Verðmæti framleiðslunnar var 6,2 milljarðar króna. 

Um frystigeymslurnar fóru 70 þúsund tonn af afurðum á árinu.

Samtals nam framleiðsla á afurðum 115.000 tonnum á árinu 2015 að verðmæti rúmlega 24 milljarðar króna.

Starfsmenn

Hjá samstæðu Síldarvinnslunnar störfuðu 334 manns til sjós og lands um síðustu áramót. Launagreiðslur félagsins voru rúmar 4.100 milljónir króna á árinu 2015 en af þeim greiddu starfsmenn 1.370 milljónir í skatta.

Aðalfundur

Á fundinum var samþykkt að greiða 15 milljónir USD í arð til hluthafa fyrir rekstrarárið 2015. Skal miða arðgreiðsluna við kaupgengi Seðlabanka Íslands á aðalfundardegi. Greiðsla arðsins fer fram 15. júní 2016. Þá var samþykkt að hækka stjórnarlaun úr 125 þúsund krónum á mánuði í 150 þúsund kr. á mánuði.

Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. var haldinn fimmtudaginn 2. júní.  

 

Fréttatilkynning frá Síldarvinnslunni hf. fimmtudaginn 2. júní 2016.

Nánari upplýsingar veitir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri, í síma 896 4760.