Beitir NK er á landleið með tæplega 3.100 tonn af kolmunna sem fengust í færeysku lögsögunni. Þar með er kolmunnaveiðum Síldarvinnsluskipa lokið að sinni. Eftir því sem best er vitað eru nú engin íslensk skip á kolmunnamiðunum en þar eru hins vegar færeysk og rússnesk skip auk grænlenska skipsins Polar Amaroq. Síldarvinnslan skilur eftir um það bil 18.000 tonn af kolmunnakvóta sínum og er stefnt að því að veiða hann í íslenskri lögsögu síðar á árinu.
Staðreyndin er sú að menn hafa aldrei upplifað aðra eins kolmunnaveiði og að undanförnu. Veiðin hefur gjarnan verið um 100 tonn á togtíma á hinu svonefnda Gráa svæði syðst í færeysku lögsögunni. Skipin hafa kappkostað að koma með aflann vel kældan að landi og hefur hann reynst vera úrvalshráefni til vinnslu hjá fiskimjölsverksmiðjum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Frá því eftir páska hefur veiðin verið samfelld og það sama er að segja um verksmiðjurnar, þær hafa sinnt framleiðslunni án hlés. Auk Síldarvinnsluskipanna, Barða, Beitis og Barkar, hafa Vilhelm Þorsteinsson EA og Hákon EA landað kolmunnaafla sínum hjá Síldarvinnslunni.
Samtals hafa verksmiðjurnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði tekið á móti um 120.000 tonnum af kolmunna frá áramótum að farmi Beitis, sem er á landleið, meðtöldum. Verksmiðjan í Neskaupstað hefur tekið á móti um 68.000 tonnum og verksmiðan á Seyðisfirði um 52.000 tonnum.
Starfsmenn fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað bíða spenntir eftir að Beitir komi með lokafarm kolmunnaveiðitímabilsins að landi en við vinnslu á honum á að taka í notkun nýjan þurrkara í verksmiðjunni. Þurrkarinn kemur frá Vélsmiðjunni Héðni og er stærsti þurrkarinn af nýrri gerð sem Héðnn framleiðir.
Nú mun undirbúningur makrílvertíðar hefjast hjá Síldarvinnsluskipunum. Í fyrra héldu þau til makrílveiða seint í júnímánuði og ekki er ósennilegt að veiðarnar hefjist um svipað leyti í ár.