Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í gærmorgun með góðan afla. Heimasíðan ræddi við Þórhall Jónsson skipstjóra og spurði fyrst um samsetningu aflans og hvar hefði verið veitt. „Aflinn var 109 tonn, mest þorskur. Við byrjuðum veiðar norður á Héraðsflóa en vorum lengst af á Gerpisflakinu. Undir lokin leituðum við síðan að ýsu á Skrúðsgrunni. Fiskurinn sem fékkst er afar fallegur og ekki undan neinu að kvarta. Eins og kunnugt er hefur verið mikil traffík á miðunum hérna fyrir austan að undanförnu og megnið af togaraflotanum verið hér að veiðum. Þó sýnist mér að frystitogararnir séu flestir farnir núna. Þessi traffík hérna fyrir austan er óvenjuleg en skýringin er góður afli og gott veður. Veðrið hefur í sannleika sagt leikið við okkur. Og hér fyrir austan hefur verið mikið æti fyrir fiskinn, bæði síld og kolmunni. Núna stefnir í að það verði eitthvað lát á blíðunni, það eru haustlægðir framundan,“ segir Þórhallur.
Gullver hélt á ný til veiða síðdegis í gær.