Ísfisktogarar Bergs-Hugins og Bergur VE hafa verið að fiska vel að undanförnu. Bergur landaði fullfermi í Þorlákshöfn á fimmtudag og er aftur að landa fullfermi í Eyjum í dag. Skip Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, fóru út á föstudag og lönduðu fullfermi í gær. Síðan er gert ráð fyrir að Eyjarnar báðar komi til löndunar á morgun. Heimasíðan sló á þráðinn til Birgis Þórs Sverrissonar, skipstjóra á Vestmannaey og spurði fyrst hvort hann væri ekki ánægður með vertíðina. „Jú, það má segja að góðri vertíð sé að ljúka. Það hefur fiskast vel og vertíðin hefur verið ótrúlega fín veðurfarslega séð. Ég held að þetta sé einhver besti vetur hvað veður varðar sem ég man eftir. Við lönduðum fullfermi í gær eftir stuttan túr. Við byrjuðum í Háfadýpinu og tókum þar ýsu og lýsu og síðan var farið á Selvogsbankann og fyllt með þorski. Bergey var á sama róli – við tvíburarnir fylgjumst að. Núna erum við vestast á Selvogsbanka í mjög góðri veiði. Það eru allar lokanir búnar nema kolalokanir sem taka enda 1. maí. Annars er að síga á síðasta hluta vertíðarinnar. Þorskurinn er hryngdur og byrjaður að ganga af, en það er allt morandi í ýsu. Við erum bara hressir hér um borð og ánægðir með fiskiríið sem hefur verið,“ segir Birgir Þór.

Bergey VE kemur að landi í Vestmannaeyjum. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson