Borkur og Bjarni

Fjær liggur Bjarni Ólafsson AK sem verið er að landa úr. Börkur NK bíður löndunar. Ljósm: Smári Geirsson

                Lokið var við að landa 500 tonnum af makríl úr Beiti NK í Neskaupstað í gær. Allur aflinn fór til vinnslu í fiskiðjuverinu en makrílinn var töluvert síldarblandaður. Í kjölfar Beitis hófst löndun úr Bjarna Ólafssyni AK en hann er með 600 tonn. Börkur NK kom síðan til hafnar í nótt með 840 tonn. Heimasíðan ræddi við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki og spurði hvar aflinn hefði fengist. „Við fengum aflann í fjórum holum í kantinum utan við Gerpistotu, um 50 mílur út af Gerpi. Þetta er góður makríll og það var mikið að sjá í gær. Fiskurinn er um 460 gr. að meðaltali. Makríllinn gengur í norður og fer hratt. Öll skip á miðunum fengu góðan afla í gær en fyrir þessa hrotu hafði ekki verið mikið að hafa um tíma. Aflinn hjá okkur er ekkert síldarblandaður enda toguðum við yfir daginn og þá heldur síldin sig niðri,“ sagði Hjörvar.