Nú fer að líða að lokum yfirstandandi makríl- og síldarvertíðar. Í tilefni af því hafði heimasíðan samband við Jón Gunnar Sigurjónsson verksmiðjustjóra í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og spurðist fyrir um hvernig vertíðin hefði verið. „Vertíðin hefur verið einstaklega góð“, sagði Jón Gunnar,“ veiðin hefur verið samfelld og vinnslan gengið vel. Frá því að vertíðin hófst um miðjan júlí hefur enginn dagur fallið niður í fiskiðjuverinu vegna hráefnisskorts. Veður hefur verið gott má segja í allt sumar og september var einstaklega góður þannig að skipin hafa getað stundað veiðar við góðar aðstæður nánast hvern einasta dag.“
Að sögn Jóns Gunnars hófst vertíðin í sumar hálfum mánuði seinna en í fyrra og vertíðin í fyrra hálfum mánuði seinna en árið 2012. „Þetta er gert til þess að fá betra hráefni, því lengur sem líður á sumarið því betra verður hráefnið, bæði makríllinn og síldin. Framan af vertíð er öll áhersla lögð á að fiska makríl og þegar líður á sumarið fæst hreinni makríll; þá er hann ekki eins síldarblandaður. Um miðjan september var makrílkvótinn að mestu búinn og þá sneru menn sér að síldinni af krafti. Síldin sem við höfum fengið er stór og fín og á þessum tíma er hún miklu betra hráefni en hún hefði verið fyrr í sumar. Við erum um þessar mundir að vinna úr 700-800 tonnum af síld á sólarhring og vinnslan hefur gengið eins og í sögu.“
Jón Gunnar segir að ekki sé unnt að vera annað en sallaánægður með vertíðina, hún hafi vart geta gengið betur. Gera má ráð fyrir að vinnslu á norsk-íslenskri síld muni ljúka í næstu viku og þá verði farið að undirbúa vinnslu á íslenskri sumargotssíld.