Barði NK á loðnumiðunum. Ljósm. Ólafur Már Harðarson

Nú er loðnuvertíðinni að ljúka enda kvótar gjarnan uppurnir. Loðnuvertíð, sem einkennst hefur af góðri veiði, góðu veðri og góðu hráefni sem skipin hafa fært að landi. Í gær var hvasst á miðunum vestur af landinu en engu að síður var ágæt veiði. Barði NK er með 1.200 tonn á landleið og grænlensku skipin Polar Amaroq og Polar Ammassak eru á austurleið með fullfermi. Polar Amaroq mun væntanlega landa á Seyðisfirði og það mun Vilhelm Þorsteinsson EA einnig gera. Polar Ammassak mun hins vegar landa í Neskaupstað. Í Neskaupstað er nú verið að kreista hrogn úr Bjarna Ólafssyni AK og síðan verður kreist úr Hákoni EA þannig að hrognavinnslan heldur enn um sinn áfram af fullum krafti. Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar hefur öll vinnsla gengið afar vel á vertíðinni rétt eins og í fiskimjölsverksmiðjunum í Neskaupstað og á Seyðisfirði.