Beitir NK

Landað úr Beiti NK í gær. Ljósm: Hákon Ernuson

                Löndun úr Beiti NK lauk í Neskaupstað klukkan þrjú í nótt. Greint hafði verið frá því að afli skipsins væri rúmlega 3.000 tonn og um væri að ræða mettúr loðnuveiðiskips, en hann reyndist vera 3.120 tonn. Hluti aflans fór til hrognavinnslu en öðru var landað til vinnslu hjá fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar. Tómas Kárason skipstjóri sagði að það kæmi sér ekki á óvart hvað hefði komið upp úr skipinu og aflinn væri nálægt því sem gefið hefði verið upp fyrir löndun. „Þetta var virkilega flott því það er ekkert gefið að fá góða vigt á þessum tíma meðal annars vegna hrognanna í aflanum. Við á Beiti erum ánægðir með þessa fínu veiðiferð og ég hef ekki heyrt um meiri loðnuafla í veiðiferð hjá nokkru skipi. Víst er að ekkert íslenskt skip hefur þessa burðargetu og færeysk og norsk loðnuskip ekki heldur. Nú er bara að klára vertíðina með stæl en það er ekki mikið eftir af kvóta hjá okkur, kannski tveir fullfermistúrar eða svo,“ sagði Tómas.