Landað úr Beiti NK. Ljósm. Smári Geirsson

Áfram koma makrílskipin til Neskaupstaðar með góðan afla. Í gær kom Beitir NK með 1.900 tonn og í morgun kom Barði NK með 1.200 tonn. Þau fimm skip sem eru í veiðisamstarfi og landa afla sínum hjá Síldarvinnslunni hafa nú borið að landi rúmlega 20.000 tonn það sem af er makrílvertíðinni. Þá eru eftir rúm 15.000 tonn af kvóta þeirra. Síðustu dagana hefur aflinn í Síldarsmugunni verið töluvert síldarblandaður og hefur veiðisvæðið verið að færast fjær landinu. Nú eru skipin að veiðum rúmlega 600 mílur frá Norðfjarðarhorni eða austan við Jan Mayen.

Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, segir að síðasti túr hafi gengið vel. „Við byrjuðum á að setja eitt 350 tonna hol í Vilhelm Þorsteinsson en síðan veiddum við sjálfir í okkur að mestu. Tókum að vísu eitt 250 tonna hol frá Barða. Holin hjá okkur voru sjö talsins og í reyndinni var aflinn þokkalegur. Stærsta holið var 550 tonn. Það er töluvert af síld á svæðinu og aflinn er síldarblandaður. Í einu holinu var til dæmis 40% síld. Annars er allt gott að frétta og vertíðin gengur bara vel. Nú erum við að vinna svolítið í trollinu en það verður haldið út á ný strax að löndun lokinni,“ segir Tómas.