Börkur NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson

Enn er íslensk sumargotssíld unnin í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Þegar þetta er ritað er verið að landa úr Barða NK sem kom í gær með rúmlega 900 tonn af miðunum vestur af landinu. Börkur NK er á landleið, einnig með rúmlega 900 tonn, og kemur hann til hafnar í fyrramálið. Vilhelm Þorsteinsson EA var að koma á síldarmiðin eftir að hafa landað 1.300 tonnum eystra. Heimasíðan sló á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar, skipstjóra á Berki, en þá var skipið nýlega komið framhjá Vestmannaeyjum á austurleið. „Það var heldur erfitt að eiga við síldina núna. Það var ekki mikið af lóðningum og síldin var á litlum blettum. Þar að auki var ótíð, sannkallað skítaveður flesta daga. Hvað við gerum í framhaldinu er óvíst. Við erum klárir í að halda áfram á síldinni eða fara norður fyrir land og hyggja að loðnunni,“ segir Hjörvar.