Barði NK kom til Neskaupstaðar í morgun með rúm 2.000 tonn af kolmunna sem fékkst vestan við Þórsbankann. Heimasíðan ræddi við Þorkel Pétursson skipstjóra og spurði fyrst hvort veiðin væri áfram jöfn og góð. „Já, það má segja það. Veiðin hefur verið góð nema þegar veður truflar. Við þessar veiðar nýtist einungis bjartur dagurinn því fiskurinn dreifir sér í myrkrinu og þá þýðir lítið að toga. Við fengum þennan afla í sjö holum en við tókum eitt hol á dag. Holin voru misjafnlega stór eða frá 200 tonnum og upp í 440 tonn. Þetta er þriðji túrinn okkar á þessi mið og við erum búnir að fiska samtals 4.400 tonn. Reyndar var fyrsti túrinn afar stuttur vegna veðurs. Nú er skipum farið að fjölga á þessum veiðum. Svanur tók þarna túr og nú er Beitir kominn og einnig Eskifjarðarskipin þrjú, Jón Kjartansson, Guðrún Þorkelsdóttir og Aðalsteinn Jónsson. Ég vona bara að framhald verði á þessu því mikilvægt er fyrir okkur að kolmunninn veiðist innan lögsögunnar,“ segir Þorkell.