Gísli Níls Einarsson, sérfræðingur í öryggismálum. Ljósm. Ómar Bogason

Hér á heimasíðunni var nýverið greint frá því að Gísli Níls Einarsson, sérfræðingur í öryggismálum, hefði fundað með áhöfnum uppsjávarskipa Síldarvinnslunnar um öryggismál. Sérstaklega fjallaði hann um öryggisstjórnunarkerfið Öldu, atvikaskráningakerfið Atvik sjómenn og öryggisbúnaðinn Sjókall. Í gær kom Gísli á ný austur og hélt sams konar fundi með áhöfn frystitogarans Blængs í Neskaupstað og ísfisktogarans Gullvers á Seyðisfirði. Segir Gísli að báðir þessir fundir hafi verið afar ánægjulegir. „Þetta voru beinlínis skemmtilegir fundir um þau alvarlegu mál sem voru til umræðu. Áhafnir beggja skipa tóku virkan þátt í umræðum og komu með góðar ábendingar. Nú eru fimm útgerðir og á fimmta hundrað sjómenn þátttakendur í notendaprófunum á Öldunni sem hófust í febrúar síðastliðnum. Félag skipstjórnarmanna ákvað nýverið að styrkja þróun öryggisstjórnunarkerfisins um eina milljón króna og eins hafa útgerðir lýst yfir vilja til að leggja sitt af mörkum til að unnt sé að ljúka starfinu við að nútímavæða öryggismál sjómanna. Stefnt er að því að ég fari fljótlega til Vestmannaeyja og fundi um þessi mál með áhöfnum Bergs og Vestmannaeyjar. Það er að sjálfsögðu tilhlökkunarefni,“ segir Gísli.

Áhöfn Gullvers NS á fundi um öryggismál í gær. Ljósm. Ómar Bogason