Frá Norðfjarðarhöfn í gær. Vilhelm Þorsteinsson EA var að landa fullfermi og fjær bíður Barði NK löndunar.
Ljósm. Smári Geirsson

Að undanförnu hefur verið góð kolmunnaveiði í færeysku lögsögunni og er ekkert lát á henni. Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði hafa í reynd meira en nóg hráefni og gengur vinnslan vel. Um helgina lönduðu Beitir NK og Hákon EA fullfermi á Seyðisfirði og Vilhelm Þorsteinsson EA í Neskaupstað. Barði NK kom síðan með fullfermi eða 2.125 tonn til Neskaupstaðar í gær. Heimasíðan ræddi stuttlega við Runólf Runólfsson, skipstjóra á Barða, og spurði fyrst hvernig veiðin hefði gengið. „Segja má að hún hafi gengið vel. Aflinn fékkst í sex holum og var stutt dregið eða allt niður í tvo tíma. Minnsta holið gaf 200 tonn en hið stærsta 480 tonn. Veitt var vestan við Færeyjar í Ræsinu svonefnda en það er norðan við Færeyjabanka. Þarna er talsvert af fiski á ferðinni og hann virðist vera á stóru svæði, en samt finnst mér ég stundum hafa séð meira. Það er mikill straumur á þessum slóðum og öflugustu skipin ráða best við aðstæðurnar og fiska mest. Kolmunninn er kominn óvenju norðarlega miðað við árstíma og hann fer vestan við eyjarnar sem er gott. Hann ætti að vera kominn í íslenska lögsögu í maí og þá verður án efa hörkuveiði í Rósagarðinum. Hann virðist vera að flýta sér heim blessaður. Við komum til Neskaupstaðar um miðjan dag í gær en munum ekki landa fyrr en í kvöld. Það er miklu betra að geyma hráefnið kælt í skipinu en í tönkum verksmiðjunnar. Mér líst bara vel á framhaldið á kolmunnaveiðinni og það verður auðvitað miklu þægilegra í alla staði að veiða hann í íslenskri lögsögu þegar þar að kemur,“ segir Runólfur.

Þegar þetta er ritað eru Börkur NK og Margrét EA á landleið með fullfermi. Áformað er að Börkur landi á Seyðisfirði og Margrét í Neskaupstað.