Í dag undirrituðu Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Stefán Már Guðmundsson formaður Íþróttafélagsins Þróttar reglugerð fyrir Afreksmannasjóð Guðmundar Bjarnasonar. Á aðalfundi Síldarvinnslunnar í fyrra var samþykkt að stofna sjóðinn og skyldi Síldarvinnslan árlega veita honum eina milljón króna til ráðstöfunar. Sjóðurinn er stofnaður í minningu Guðmundar Bjarnasonar sem lést á síðasta ári. Guðmundur var formaður Þróttar á árunum 1984 til 1987 og formaður knattspyrnudeildar félagsins á árunum 1976-1985. Þá sat Guðmundur í stjórn Knattspyrnusambands Íslands á árunum 1978-1991. Sæti í stjórn Síldarvinnslunnar átti Guðmundur á árunum 1991-2005 auk þess sem hann sat í stjórn Samvinnufélags útgerðarmanna frá 1984 til dauðadags en stjórnarformaður félagsins var hann frá 2005. Guðmundur gegndi starfi bæjarstjóra, fyrst í Neskaupstað og síðan í Fjarðabyggð, á árunum 1991-2006.
Tilgangur sjóðsins er að styrkja einstaklinga innan Þróttar sem náð hafa framúrskarandi árangri í íþrótt sinni. Á það við þegar viðkomandi hefur öðlast rétt til keppni á fjölþjóðlegum mótum, verið valinn í landslið, unnið Íslandsmeistaratitil, sett Íslandsmet eða skarað fram úr með eftirtektarverðum hætti. Sækja þarf um styrk úr sjóðnum og er gert ráð fyrir að styrkjum verði úthlutað tvisvar á ári. Stjórn Íþróttafélagsins Þróttar ásamt einum fulltrúa frá Síldarvinnslunni skipa sjóðsstjórnina.