Vestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Vestmannaey VE landaði fullfermi í Eyjum í gær. Aflinn var mest þorskur. Heimasíðan ræddi við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra og spurði hvernig túrinn hefði verið. „Þessi túr var óskaplega afslappaður og rólegur og í reynd tíðindalítill. Hann hentaði okkur vel að afloknum sjómannadegi. Við vorum bara tvo daga á veiðum á Pétursey og Vík og það var fínasta kropp. Þarna fékkst ágætur millifiskur stútfullur af sandsíli. Það er stoppað rúman sólarhring í landi en við förum út klukkan þrjú í dag. Í næsta túr þarf aflinn að verða blandaðri. Auðvitað mun kvóti komandi fiskveiðisárs hafa áhrif á okkur. Það er samdráttur í þorski, ufsa og karfa en hins vegar umtalsverð aukning í ýsu. Ýsuaukningin kom alls ekki á óvart enda hefur að undanförnu orðið vart við mikla ýsu víða,“ segir Birgir.