Útskipun á mjöli.  Ljósm. Ágúst BlöndalÍ maímánuði og það sem af er júní hefur mikið verið um útskipanir á afurðum úr birgðageymslum Síldarvinnslunnar. Alls eru útskipanirnar 26 á þessu tímabili og er um frystar afurðir að ræða ásamt mjöli og lýsi. Frystu afurðirnar eru loðna, loðnuhrogn og síldarflök auk þess afla sem frystitogarinn Barði hefur borið að landi. Á tímabilinu hafa verið 5 útskipanir á mjöli og hafa verið flutt út á vegum Síldarvinnslunnar rúmlega 8.600 tonn. Mjölið kemur frá verksmiðjum fyrirtækisins í Neskaupstað og á Seyðisfirði en einnig frá verksmiðju Skinneyjar-Þinganess á Hornafirði en Síldarvinnslan annast sölu á afurðum hennar. Útskipanirnar á lýsi eru 4 talsins, samtals rúmlega 5.600 tonn. Langmest af mjölinu og lýsinu fer til framleiðslu á fóðri fyrir norskan eldisfisk en nú fer í hönd sá tími sem fóðurþörfin er hvað mest.