Sturla Þórðarson skipstjóri á Berki NK.  Ljósm. Þorgeir BaldurssonKolmunnaveiðin hefur verið að glæðast eftir enn eina bræluna á miðunum. Heimasíðan hafði samband við Sturlu Þórðarson skipstjóra á Berki NK og spurðist frétta af miðunum. Sturla sagði að veiðin hefði farið heldur rólega af stað eftir að veðrið gekk niður en nú væri ágætis veiði og talsvert að sjá. „Við byrjuðum að veiða á miðvikudagsmorgun en höfðum þá „slóað“ á miðunum í 12 tíma vegna veðurs. Í fyrsta holinu voru um 350 tonn en þá var híft eftir 17 tíma. Nú hafa hins vegar aflabrögðin breyst til hins betra og við vorum að taka 400 tonna hol eftir 5 tíma. Auðvitað vill maður alltaf betri veiði en það er varla ástæða til að kvarta undan núverandi aflabrögðum og útlitið er bara gott. Við erum komnir með 1400 tonn og vonandi fyllum við skipið með næsta holi“.