Beitir NK.  Ljósm. Þorgeir BaldurssonÁgæt kolmunnaveiði er nú á miðunum við Færeyjar. Heimasíðan hafði samband við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Beiti NK en Beitir var þá á veiðum um 70 mílur suður úr Mykinesi. Hjörvar sagði eftirfarandi um veiðina: „Við hófum veiðar í gær en þá var tómt bras á okkur því höfuðlínukapallinn var í ólagi.

Fyrstu 10 tímarnir á miðunum fóru því í vesen. Við drógum síðan í 4 tíma og fengum 180 tonn. Nú vorum við hins vegar að hífa eftir 8 tíma og mér sýnist þetta vera um 300 tonn og það er ágætt. Almennt eru skipin að fá góðan afla. Börkur var til dæmis búinn að fá 800 tonn eftir tvö hol. Mér sýnist að skipin séu almennt að fá um 700 tonn á sólarhring um þessar mundir og það getur enginn kvartað yfir slíkum aflabrögðum“.