Beitir NK kom með 1.345 tonn af síld til Neskaupstaðar í gærmorgun og hófst þegar vinnsla á aflanum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Börkur NK hélt til síldveiða í gær og er ráðgert að hann komi til löndunar á morgun. Barði NK landaði 1.200 tonnum af síld í Neskaupstað fyrir helgi og hélt síðan til makrílveiða í gær.
Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti, segir að það sé töluvert af síld að sjá á miðunum. „Við fengum aflann í norðurkanti Seyðisfjarðardýpis og í Héraðsflóanum. Þetta voru fjögur hol og var dregið í 4-5 tíma. Stærsta holið var rúm 400 tonn og hið minnsta 200. Síldin er eins og krapi í yfirborðinu í myrkrinu en á daginn eru þetta dreifðar torfur niðri,“ segir Sturla.