Ísfisktogararnir Bergur VE, Vestmannaey VE og Gullver NS voru ýmist að landa fullfermi í gær eða á landleið með fullfermi. Öll voru skipin að veiðum austur af landinu.
Bergur VE landaði í Neskaupstað í gærmorgun. Jón Valgeirsson skipstjóri segir að veiðiferðin hafi gengið vel. „Það var fínasta veiði í Litladýpi og á Skrúðsgrunni en aflinn er langmest þorskur og ýsa. Þetta er ágætur fiskur sem ætti að henta vel fyrir vinnslurnar,“ segir Jón.
Vestmannaey var á leið til Vestmannaeyja í gær. Heimasíðan sló á þráðinn til Egils Guðna Guðnasonar skipstjóra. „Við vorum á Gerpisflaki, á Fætinum og á Skrúðsgrunni og það var góð þorsk- og ýsuveiði þarna. Það er ekki hægt að kvarta yfir aflabrögðunum,“ segir Egill Guðni.
Gullver kom til Seyðisfjarðar á sunnudag en landað var fullfermi eða 114 tonnum úr skipinu í gær. Þórhallur Jónsson skipstjóri lét vel af þorsk- og ýsuveiði. „Aflinn hjá okkur var mest þorskur en einnig ýsa og karfi. Það gekk vel að ná í þorskinn og ýsuna en erfiðar var að ná karfanum. Við reyndum einnig við ufsa en það var sama gamla sagan, það kom lítið út úr því. Við fengum þorskinn og ýsuna á Fætinum og á Skrúðsgrunni en karfinn fékkst í Berufjarðarálnum,“ segir Þórhallur.
Allir skipstjórarnir gerðu veðurhorfur næstu daga að umtalsefni og sögðu horfurnar ekki glæsilegar. Töluðu þeir um að það stefndi í helvítis ótíð og skítviðri og næsta vika yrði einfaldlega hundleiðinleg veðurfarslega.