Að undanförnu hefur verið ágæt veiði hjá ísfisktogurunum. Gullver NS landaði 90 tonnum af blönduðum afla á Seyðisfirði í gær og þá lönduðu einnig Vestmannaey VE og Bergey VE fullfermi, eða yfir 70 tonnum, í Vestmannaeyjum. Vestmannaeyjaskipin voru einnig með blandaðan afla.
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að túrinn hafi byrjað í brælu. „Við byrjuðum á Víkinni. Síðan var farið í Meðallandsbugtina og þaðan á Ingólfshöfðann. Undi rlokin var farið í Breiðamerkurdýpi og þar fékkst fínn, blandaður afli,“ segir Birgir Þór.
Jón Valgeirsson , skipstjóri á Bergi, hefur svipaða sögu að segja. „ Veiðiferðin hófst á Víkinni. Síðan var reynt á Meðallandsbugt með heldur litlum árangri. Þaðan var haldið á Ingólfshöfðann og síðan restað á Öræfagrunni í ágætu fiskiríi,“ segir Jón
Þórhallur Jónsson, skipstjóri á Gullver, segir að í veiðiferðinni hafi verið lögð áhersla á að ná ufsa. „Við byrjuðum á Papagrunni og síðan var haldið á Stokksnesgrunn. Undir lokin var ætlunin að ná í góðan þorskskammt en þá var komið skítaveður,“ segir Þórhallur.
Vestmannaeyjaskipin munu halda á ný til veiða um hádegisbil á fimmtudag en Gullver lætur úr höfn í kvöld