Vestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu báðir í Eyjum í gær. Bæði skip voru með fullfermi en þau hafa að undanförnu landað á tveggja til þriggja daga fresti. Heimasíðan ræddi við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey og spurði fyrst um aflann og hvar hefði verið veitt. “Aflinn er ýsa, þorskur og koli. Við byrjuðum á Ingólfshöfða og vorum þar í ýsu og kola en síðan var þorskurinn tekinn á Broadway vestan við Eyjar. Það var ágætis veður í túrnum og reyndar hefur ekki verið hægt að kvarta mikið undan veðri að undanförnu. Hann hefur legið í norðanáttum og veðrið hefur ekki haft mikil áhrif á veiðarnar. Það er búin að vera fínasta vertíð til þessa og menn sáttir við árangurinn. Vertíðin hefur hins vegar verið svolítið óvenjuleg eða skrítin. Fiskurinn hefur verið seint á ferðinni og hann hefur hagað sér öðruvísi en yfirleitt áður. Hann hefur haldið sig grunnt og ekki gengið út á hinar hefðbundnu hrygningarslóðir. Veiðin hefur gjarnan komið í gusum, það fiskast vel en síðan verður allt steindautt og þá þarf að færa sig. Við höfum séð töluvert af loðnu og henni fylgir hvalur. Loðnan kom seint og við urðum fyrst varir við hana á Vík og Pétursey um 10. mars. Nú höfum við líka séð loðnu fyrir vestan Eyjar. Auðvitað gerum við okkur ekki grein fyrir því hve loðnan gengur í miklu magni en hún sýnir sig hér. Við munum halda til veiða á ný aðfaranótt laugardags og gert er ráð fyrir að landað verði á annan í páskum. Það verður að tryggja vinnslunum hráefni eftir hátíðina,” segir Birgir Þór.