Beitir NK kemur með fullfermi af kolmunna til Neskaupstaðar í dag. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK kemur með fullfermi af kolmunna til Neskaupstaðar í dag. Ljósm. Hákon ErnusonÁgæt kolmunnaveiði hefur verið syðst í færeysku lögsögunni síðustu daga en þar er mikill floti skipa að veiðum. Ólafur Gunnar Guðnason stýrimaður á Berki sagði í morgun að líklega væru 30-40 skip að veiðum á litlum bletti og þau væru að toga nánast á línunni þar sem kolmunninn gengi norður og inn í færeysku lögsöguna. „Það er mikil strolla af skipum að toga hérna og við erum væntanlega að taka lokaholið, en það vantar um 250 tonn til að fylla skipið,“ sagði Ólafur. „Við erum núna með okkar sjöunda hol í túrnum og venjulega er togað í 12-18 tíma. Aflinn er breytilegur en við höfum verið að fá 300-500 tonna hol og það er gott. Það kom smá deifð í veiðina í gær og fram eftir nóttu en nú hefur verið að lifna yfir þessu aftur. Þetta gengur svona á kolmunnanum, veiðin vill vera dálítið köflótt. Við gerum ráð fyrir að fylla skipið og leggja af stað í land um eða uppúr hádegi,“ sagði Ólafur að lokum.
 
Beitir er væntanlegur til Neskaupstaðar með fullfermi af kolmunna í dag og Birtingur hefur hafið veiðar. Birtingur þurfti að bíða í höfn í Færeyjum um tíma til að komast að á miðunum en einungis 12 íslensk skip mega veiða samtímis í færeysku lögsögunni.