Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE eru báðir að landa í dag. Bergur landar í Grindavík en Vestmannaey í Vestmannaeyjum. Heimasíðan ræddi stuttlega við skipstjórana og innti þá frétta af veiðiferðinni. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, segir að túrinn hjá þeim hafi verið stuttur. „Við fórum út á sunnudag og áttum að taka karfa í túrnum. Haldið var í Skerjadýpið og þar gekk vel að fiska. Það var ágætis nudd þarna. Við vorum svo kallaðir inn og komum til Grindavíkur í gærkvöldi með um 40 tonn. Aflinn fékkst í fimm holum og er hann mest djúpkarfi og síðan dálítið af gullkarfa. Það verður landað í dag og við höldum á ný til veiða í kvöld,“ segir Jón.
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að túrinn hjá þeim hafi gengið ágætlega. „Aflinn hjá okkur er mest þorskur og ýsa og við erum með fullt skip. Það var farinn hefðbundinn veiðirúntur, byrjað á Pétursey og Vík og síðan veitt á Ingólfshöfða, í Sláturhúsinu og á Mýragrunni. Það er heldur farið að hægja á ýsuveiðinni eins og oft gerist þegar hausta tekur en þorskveiðin var bara góð. Við förum á ný til veiða á morgun en það fækkar óðum túrunum á þessu kvótaári,“ segir Birgir Þór.