Trollið tekið á Bjarti NK.  Ljósm. Þorgeir BaldurssonÍsfisktogarinn Bjartur NK landaði tæplega 103 tonnum af þorski í Neskaupstað í gær eftir tveggja og hálfs sólarhrings veiðiferð. Að sögn Steinþórs Hálfdanarsonar skipstjóra var um fínasta fisk að ræða sem hentar vel til vinnslu. Aflinn fékkst á Grunnfæti og á Herðablaðinu.

Bjartur hélt til veiða strax að lokinni löndun og hóf veiðar á ný á Örvæntingarhorninu. Í fyrsta holi fengust tæp 7 tonn af þorski eftir 35 mínútur, síðan um 5 tonn eftir klukkutíma hol og í þriðja holi fengust 6 tonn eftir 3 tíma. Segir Steinþór að ráðgert sé að Bjartur komi til löndunar með um 100 tonna afla á fimmtudagsmorgun.