Að undanförnu hefur veiðst vel af kolmunna sunnarlega í færeysku lögsögunni. Hinn nýi Bjarni Ólafsson AK kom úr sínum fyrsta túr til Neskaupstaðar að morgni uppstigningardags og var með fullfermi eða um 2000 tonn. Hákon EA lauk við að landa fullfermi í Neskaupstað í gær og Birtingur NK er að landa fullfermi núna. Þegar þetta er skrifað er verið að ljúka við að landa fullfermi úr Berki NK á Seyðisfirði og Vilhelm Þorsteinsson EA landaði þar 15. maí og Beitir NK hinn 13.
Heimasíðan sló á þráðinn til Tómasar Kárasonar skipstjóra á Beiti í morgun en þá var skipið að veiðum um 74 sjómílur suður af Akraberginu. „Í sannleika sagt hefur verið ágætur gangur í kolmunnaveiðunum að undanförnu og veður hefur verið tiltölulega hagstætt að undanskildum tveimur skammvinnum brælum sem við höfum fengið á síðustu tíu dögunum,“ sagði Tómas. „Við höfum mikið verið að fá 300-400 tonn í holi eftir að hafa togað í 7-10 tíma og einstaka hol hefur verið enn stærra. Það er býsna gott. Við erum komnir með 1400 tonn í fjórum holum í þessum túr og erum núna að dæla úr góðu holi. Ætli séu ekki ein 400 tonn í þessu núna. Við þurfum sennilega eitt hol til viðbótar til að fylla skipið og þá verðum við búnir að fiska um 13.500 tonn á vertíðinni. Við erum bara sáttir við það,“ sagði Tómas að lokum.