Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE komu báðir með fullfermi til heimahafnar í Vestmannaeyjum sl. sunnudag. Að lokinni löndun á mánudag hélt Bergur strax á ný til veiða en Vestmannaey heldur ekki til veiða fyrr en á morgun. Bergur kom síðan til hafnar í morgun með 66 tonn og hefur nýja veiðiferð á föstudag. Heimasíðan ræddi við Jón Valgeirsson, skipstjóra á Bergi, og spurði fyrst hvar hefði verið veitt. „Það var veitt víða í fyrri túrnum. Við vorum í Reynisdýpinu og náðum þar í karfa, þá var haldið á Síðugrunn þar sem fékkst ýsa og síðan var blandaður afli tekinn bæði í Sláturhúsinu og á Ingólfshöfða. Nú er lögð áhersla á að ná í blandaðan afla og það sama á við um Vestmannaey, sem var á sömu slóðum og við en fór þó ekki í Sláturhúsið og Reynisdýpið. Í seinni túrnum fórum við á Víkina og tókum þar þorsk og ýsu og það var aðeins ufsi með. Því miður er gjarnan minnst af ufsa í þessum túrum þrátt fyrir að mikið sé leitað að honum,“ segir Jón.