Um þessar mundir leggja Vestmannaey VE og Bergey VE áherslu á ýsuveiðar. Skipin hafa að undanförnu helst verið að fiska fyrir austan Vestmannaeyjar og út af Suðausturlandi. Að sögn Arnars Richardssonar rekstarstjóra ganga veiðarnar rólega. „Skipin hafa verið um það bil fimm daga í hverri veiðiferð að undanförnu og það telst heldur rólegt hjá okkur. Bergur – Huginn er stærsta fyrirtækið í ýsu á landinu og því fögnum við auðvitað mjög auknum ýsukvóta á næsta fiskveiðiári. Ýsukvótinn var aukinn um 40% og það þýðir um 600 tonna aukningu á skipin okkar tvö. Þá njótum við einnig aukins ufsakvóta svo það verður nógu að sinna hjá okkar mönnum á næsta fiskveiðiári,“ segir Arnar.